Ísfélag hf.: Ársuppgjör 2023

Source: GlobeNewswire
Ísfélag hf.: Ársuppgjör 2023


Ársreikningur Ísfélagsins 2023 

Helsta úr starfseminni. 

  • Sameining Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. 
  • Skráning félagsins á markað. 
  • Reksturinn var góður á árinu 2023. 
  • Heildarafli skipanna var rúmlega 151 þúsund tonn. 
  • Bolfiskafli skipa félagsins var tæp 24 þúsund tonn. 
  • Framleiddar afurðir voru um 70 þúsund tonn á árinu. 
  • Markaðir voru almennt góðir fyrir uppsjávarafurðir. 
  • Umtalsverðar fjárfestingar áttu sér stað á árinu.  

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins 

  • Rekstrartekjur ársins námu 194 m.USD. 
  • Hagnaður ársins nam 39 m.USD. 
  • EBITDA var 71 m.USD eða 36,4% á árinu.  
  • Heildareignir námu 804 m.USD í lok árs og var eiginfjárhlutfallið 69%. 
  • Nettó vaxtaberandi skuldir námu 99 m.USD og var NIBD (Nettó skuldir/EBITDA) 1,39. 

Rekstur 

Tekjur á árinu námu 194 m.USD samanborið við 164 m.USD árið 2022. Tekjuaukningin skýrist að mestu af sameiningu Ramma hf. og Ísfélags Vestmannaeyja hf. um mitt árið 2023.  


Hagnaður ársins nam 39 m.USD á árinu 2023 samanborið við 61 m árið á undan. Helstu ástæður fyrir lækkun hagnaðar á milli ára eru gangvirðisbreytingar vegna vaxtaskiptasamninga og hlutabréfaafleiða.  

EBITDA ársins 2023 var 71 m.USD eða 36,4% af rekstrartekjum. Á árinu 2022 var EBITDA 70 m.USD eða 42,7% af rekstrartekjum.  

Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Rammi hf. sameinuðust 30. júní árið 2023 undir nafninu Ísfélag hf. Þar af leiðandi er rekstur Ramma hf. fyrstu 6 mánuði ársins ekki meðtalinn í ársuppgjöri Ísfélagsins. Til að sýna helstu rekstrartölur félaganna saman fyrir allt árið 2023, var tekinn saman Pro forma rekstur þar sem rekstri Ramma hf. (nettó) fyrstu 6 mánuðina er bætt við rekstrarreikning Ísfélagsins.  

Í Pro forma rekstri kemur fram að Rekstrartekjur árið 2023 er 232 m.USD. hagnaður ársins 2023 er 45 m.USD samanborið við 39 m.USD, skv. ársuppgjöri Ísfélagsins. EBITDA pro forma er 80 m USD á árinu 2023 samanborið við 71 m.USD í ársuppgjöri félagsins fyrir sama ár.  

Efnahagur 

Heildareignir Ísfélagsins námu 804,4 m.USD í lok ársins 2023.  

Eignirnar skiptast í fastafjármuni sem voru 663,4 m.USD og veltufjármuni sem voru 141 m.USD. Í lok ársins 2022 voru Heildareignir 335,3 m.USD. Þar af voru fastafjármunir 263 m.USD og veltufjármunir 72,3 m.USD. Heildareignir jukust þar af leiðandi um 469 m.USD. Má aukninguna einna helst rekja til sameiningu Ísfélags Vestmannaeyja og Ramma. Fastafjármunir jukust um 400 m.USD. Kaup Ísfélagsins á 29% hlut í Austur holding hafði einnig nokkur áhrif á hækkun fastafjármuna. Veltufjármunir hækkuðu um 69 m.USD milli ára.  

Fjárhagsstaða Ísfélagsins í lok ársins 2023 var sterk þar sem eigið fé nam 554,2 m.USD samanborið við 228,7 m.USD í lok árs 2022. Eiginfjárhlutfallið var 68,9% í lok árs 2023 en í lok árs 2022 var eiginfjárhlutfallið 68,2%.  

Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins voru 99 m.USD í lok árs 2023 en voru í árslok 2022 26 m.USD. Helstu ástæður hækkunar á skuldum eru kaup á hlutabréfum í Austur Holding sem er stærsti hluthafinn í austfirska laxeldisfyrirtækinu Ice Fish Farm.  

Sjóðstreymi 

Á árinu 2023 var handbært fé frá rekstri 22,5 m.USD. Árið 2022 var handbært fé 64 m.USD. Fjárfestingarhreyfingar á árinu 2023 voru neikvæðar um 93,5 m.USD. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 88 m.USD. Hækkun á handbæru fé á árinu 2023 var því 17 m.USD og var handbært fé í lok tímabilsins 44 m.USD. 

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á árinu 2023 

Þegar helstu niðurstöður úr rekstrarreikningi ársins eru færðar yfir í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2023 (137,98) voru rekstrartekjur félagsins 26,8 milljarðar íslenskra króna. 

Hagnaður ársins nam 5,3 milljörðum króna og var EBITDA félagsins 9,8 milljarður króna.  

Eignir félagsins í lok árs 2023 eru færðar í íslenskar krónur á genginu (136,2). Í lok árs 2023 voru heildareignir félagsins 109,6 milljarðar króna. Fastafjármunir námu 90,4 milljörðum króna og veltufjármunir 19,2 milljörðum króna. Eigið fé í lok ársins 2023 voru 75,5 milljarðar króna og voru skuldir og skuldbindingar 34,1 milljarðar króna.  

Samþykkt ársreiknings 

Uppgjör ársins 2023 var samþykkt á stjórnarfundi Ísfélag hf. 27. mars 2024. Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards). 

Kynningarfundur 27. mars 2024 

Kynning verður fyrir fjárfesta og markaðsaðila á ársuppgjöri þann 27. mars kl 16:15. Hún  verður haldin rafrænt í gegnum vefstreymi. Hægt er að nálgast streymið á vefsíðu Ísfélagsins. https://www.isfelag.is/streymi/  

Hægt er að senda spurningar á fjarfestatengsl@isfelag.is og verður reynt að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni 

Frá Stefáni Friðrikssyni forstjóra 

Árið 2023 var gott og viðburðarríkt ár í langri sögu félagsins. 

Í upphafi ársins lá fyrir ákvörðun stjórna Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. að stefna að sameiningu félaganna og skráningu á markað. Félögin voru sameinuð miðað við 30. júní 2023 og nafni félagsins breytt í Ísfélag hf. 

Félagið var þann 8. desember 2023 skráð á markað á aðallista Nasdaq á Íslandi. Í hlutafjárútboðinu sem var haldið í aðdraganda skráningarinnar var mikil eftirspurn eftir hlutabréfum í félaginu og er sérstök ástæða til að þakka þátttakendum í útboðinu og hluthöfum fyrir það mikla traust sem þeir hafa á félaginu. Við hjá Ísfélaginu erum ánægð að vera komin í hóp frábærra fyrirtækja sem eru skráð á markað á aðallista Nasdaq á Íslandi.  

Reksturinn gekk vel á árinu 2023.  

Loðnuvertíðin var góð, veiðin gekk vel, bæði aflabrögð og vinnsla. Framleiðsla loðnuhrogna var mikil á árinu, m.a. vegna þess að aflaheimildir voru auknar verulega þegar langt var liðið á vertíðina. Vegna þessa fór framboð á hrognum á Íslandi langt fram úr eftirspurn sem olli verðlækkun og birgðasöfnun.  

Síldarveiðar gengu afar vel á árinu, veiðin var góð og stutt á miðin og fiskurinn góður. 

Ísfélagið veiddi um 127 þúsund tonn af uppsjávarfiski á árinu og framleiddi um 32 þúsund tonn af frystum afurðum og 29 þúsund tonn samtals af mjöli og lýsi.  

Verð á uppsjávarafurðum, fyrir utan loðnuhrognum, var gott, hvort sem um var að ræða frosnar afurðir eða mjöl og lýsi.   

Bolfiskafli skipa félagsins var um 24 þúsund tonn á árinu 2023 og er þá afli skipa Ramma fyrstu sex mánuði ársins meðtalinn. 

Framleiðsla afurða í bolfiski var um 14,5 þúsund tonn. Vinnsla á afurðum gekk vel bæði á landi og um borð í frystitogaranum Sólbergi. Verð á bolfiskafurðum lækkaði á árinu en hefur nú hækkað aftur í flestum afurðum.  

Umtalsverðar fjárfestingar voru á árinu 2023. Ný loðnuhrognavinnsla í Vestmannaeyjum var tekin í notkun. Í mars keypti félagið 29% hlut í eignarhaldsfélaginu Austur Holding, sem er stærsti eigandi í Ice Fish Farm, sem er laxeldisfyrirtæki á Austurlandi. Kaupin á hlutnum í Austur Holding jafngilda 16,4% hlut í Ice Fish Farm. Nýr togari, Sigurbjörg, er í smíðum í Tyrklandi sem von er á til landsins á næstunni. Sigurbjörg mun koma í stað eldri skipa félagsins sem verða seld eða lagt. Félagið fjárfesti einnig í vinnslubúnaði í uppsjávar- og mjölvinnslum félagsins.  

Að lokum langar mig að hrósa og þakka reynslumiklum og öflugum hópi starfsmanna til sjós og lands fyrir samstarfið og frábæran árangur á árinu. 

Aðalfundur 

Aðalfundur Ísfélags hf. verður haldinn miðvikudaginn 17. apríl 2024 klukkan 16:00 á Tangagötu 1 í Vestmannaeyjum og verður einnig boðið upp á rafræna þátttöku. Nánari upplýsingar um aðalfund má finna á heimasíðu félagsins www.isfelag.is   

Fjárhagsdagatal 

Aðalfundur 2024 – 17. apríl 2024 
Birting uppgjörs Q1 2024 – 31. maí 2024 

Birting uppgjörs Q2 2024 – 30. ágúst 2024 

Birting uppgjörs Q3 2024 – 29. nóvember 2024 

Ársuppgjör 2024 – 19. Mars 2025 

Nánari upplýsingar 
Stefán Friðriksson, forstjóri 

Viðhengi