Eimskip: Afkoma annars ársfjórðungs 2024

Source: GlobeNewswire
Eimskip: Afkoma annars ársfjórðungs 2024

Helstu atriði í afkomu annars ársfjórðungs 

  • Afkoma annars ársfjórðungs var ágæt miðað við lítilsháttar minni eftirspurn á Íslandi og fjögurra vikna verkfall í Færeyjum á meðan afkoma alþjóðlegu flutningsmiðlunarinnar var góð
  • Tekjur héldust stöðugar frá fyrra ári og námu 210 milljónum evra á fjórðungnum
    • Tekjur af gámaflutningum lækkuðu um 12,9 milljónir evra á meðan tekjur af flutningsmiðlun jukust um 13 milljónir evra
    • Lægri afkoma af áætlunarsiglingum skýrist helst af lægri Trans-Atlantic verðum, lítilsháttar minnkun í innflutningsmagni ásamt breyttri samsetningu í útflutningi á Íslandi en einnig hafði fjögurra vikna verkfalli í Færeyjum töluverð áhrif
    • Betri afkoma af alþjóðlegri flutningsmiðlun litast af hærri alþjóðlegum flutningsverðum, sérstaklega á leiðum tengdum Asíu
  • Kostnaður nam 186 milljónum evra sem var aukning um 10,9 milljónir evra en hækkunin litast af hækkun á flutningskostnaði greiddum til þriðja aðila sem jókst um 10,8 milljónir evra frá fyrra ári
    • Olíukostnaður jókst lítillega eða um 0,6 milljónir evra á meðan nýlega innleiddur ETS kostnaður nam 0,9 milljónum evra á fjórðungnum en sá kostnaður er veginn upp í gegnum tekjustýringu
    •  Launakostnaður jókst um 2,9% eða 1,1 milljón evra þrátt fyrir að fjöldi stöðugilda hafi fækkað um 2% miðað við sama fjórðung í fyrra 
  • EBITDA fyrir fjórðunginn nam 23,5 milljónum evra samanborið við 34,3 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi í fyrra sem var sterkur fjórðungur
    • EBITDA afkoma af siglingakerfinu og tengdri þjónustu nam 15,1 milljón evra og lækkaði um 10,8milljónir evra frá sterkum fjórðungi í fyrra og reiknað EBITDA hlutfall 10,6% og EBIT hlutfall 1,6%
    • Áætluð neikvæð EBITDA áhrif vegna fjögurra vikna verkfalls í Færeyjum eru um 1,8 milljónir evra
    • EBITDA af alþjóðlegri flutningsmiðlun var stöðug frá fyrra ári og nam 8,4 milljónum evra og reiknað EBITDA hlutfall var 10,0%
  • EBIT fyrir fjórðunginn nam 8,6 milljónum evra samanborið við 19,4 milljónir evra í Q2 2023
  •  Hagnaður eftir skatta nam 7,9 milljónum evra samanborið við 17,0 milljónir evra fyrir sama tímabil árið 2023

HELSTU ATRIÐI Í AFKOMU FYRSTU SEX MÁNAÐA ÁRSINS

  • Tekjur námu 405,5 milljónum evra, sem er lækkun um 18,6 milljónir eða 4,4% samanborið við sama tímabil síðasta árs
  • Rekstrarkostnaður nam 367,8 milljónum evra og hækkar um 9,8 milljónir evra samanborið við fyrstu sex mánuði síðasta árs
  • EBITDA nam 37,7 milljónum evra samanborið við 66,2 milljónir evra á sama tímabili síðasta árs, sem er lækkun um 28,4 milljónir evra
  • EBIT nam 7,7 milljónum evra samanborið við 35,2 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs
  • Hagnaður eftir skatta nam 8,4 milljónum evra, samanborið við 29,5 milljón evra hagnað á sama tímabili 2023

VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

"Afkoma annars ársfjórðungs 2024 var ágæt og við sáum umsvif í rekstrinum aukast töluvert í kjölfar krefjandi fyrsta ársfjórðungs. EBITDA fjórðungsins nam 23,5 milljónum evra sem er lækkun um 10,8 milljónir frá fyrra ári. Lækkunina má nánast alfarið rekja til lakari afkomu af rekstri gámasiglingakerfisins þar sem tekjur lækkuðu vegna lægri meðalflutningsverða og minnkunar í magni, á sama tíma og rekstrarkostnaður siglingarkerfisins var svo til óbreyttur frá fyrra ári. Afkoman af gámasiglingakerfinu er hins vegar mun betri en hún var á fyrsta ársfjórðungi.

Við höfum lagt ríka áherslu á kostnaðaraðhald, en verðbólguþrýstingur og launahækkanir undanfarinna ára hafa gert það að verkum að aðhaldsaðgerðir okkar hafa fyrst og fremst dregið úr kostnaðarhækkunum, í stað þess að stuðla að lægri heildarkostnaði. Á tekjuhliðinni var ánægjulegt að sjá útflutningsmagn frá Íslandi aukast á milli ára en vegna breyttrar samsetningar farms lækkuðu meðalflutningsverð lítillega. Á hinn bóginn var samdráttur í ákveðnum vöruflokkum í innflutningi til Íslands en þar ber helst að nefna bíla og byggingarvöru á sama tíma og vöruflokkar á borð við matvæli og aðrar neysluvöru héldust stöðugar í magni. Það var vissulega viðbúið að sjá samdrátt í þessum vöruflokkum í ljósi langvarandi tímabils hás vaxtastigs á Íslandi, en við erum vongóð um að Seðlabankinn hefji slökun á peningastefnunni áður en þessi minnkun í eftirspurn breiðist yfir í aðra vöruflokka sem gæti valdið óþarflega harðri lendingu hagkerfisins.

Umfangsmikið fjögurra vikna verkfall í Færeyjum hafði töluverð áhrif á rekstur gámasiglingakerfisins þar sem verulegur samdráttur í inn- og útflutningsmagni leiddi til neikvæðra EBITDA áhrifa sem metin eru á 1,8 milljónir evra. Magn í Trans-Atlantic flutningum var svipað og á sama fjórðungi fyrra árs en góður magnvöxtur var frá fyrsta ársfjórðungi þessa árs þegar markaðsaðstæður voru krefjandi. Aftur á móti hækkuðu Trans-Atlantic flutningsverð ekki í takt við það sem við bjuggumst við á fjórðungnum og voru umtalsvert lægri en í fyrra. Það var þó jákvætt að sjá aukið jafnvægi milli vestur- og austuráttar sem hefur jákvæð áhrif á nýtingu skipanna okkar. Að lokum skilaði frystiflutningakerfið okkar í Noregi góðri afkomu á fjórðungum vegna sterks útflutnings á hvítfiski og rækju.

Alþjóðlegir skipaflutningar eru enn mjög sveiflukenndir og það var mikil hækkun á alþjóðlegum flutningsverðum á öðrum ársfjórðungi. Hækkanirnar má einkum rekja til ástandsins við Rauðahafið, sem hefur takmarkað umferð flutningaskipa um Súez-skurðinn, ásamt því sem stór og mikilvæg hagkerfi tóku við sér. Þessi háu alþjóðlegu verð, samhliða magnaukningu, stuðluðu að góðri rekstrarniðurstöðu í alþjóðlegu flutningsmiðluninni á fjórðungnum þar sem afkoman var svipuð og á síðasta ári en töluvert betri en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Portwise gerði nýverið úttekt á rekstrarformi hafnarþjónustu í Sundahöfn og var niðurstaðan sú að núverandi fyrirkomulag sé það ákjósanlegasta fyrir hagsmuni viðskiptavina í sjóflutningum sem og fyrir Faxaflóahafnir. Eimskip leggur ávallt ríka áherslu á að veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu. Það er ákveðin áskorun að reka skipafélag í krefjandi veðurkerfum Norður-Atlantshafsins og við erum vel meðvituð um mikilvægi okkar í aðfangakeðju Íslands sem er afar háð skipaflutningum sem eyríki úr alfaraleið. Jafnframt eru þarfir margra viðskiptavina okkar nokkuð sértækar og kalla á sérsniðnar lausnir sem eru að mörgu leyti ólíkar þeirri þjónustu sem stór alþjóðleg skipafélög veita þegar þau sigla milli heimsálfa á risastórum gámaskipum með vörur sem eru almennt ekki tímaháðar. Fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi síðustu áratugi í veiðum og vinnslu, ásamt uppbyggingu í laxeldi, hafa skilað auknum útflutningi á ferskri og fullunninni vöru. Þessi virðisaukandi þróun hefur kallað á aukinn hraða og sveigjanleika í flutningskeðjunni, ekki síst með tilliti til sjóflutnings. Aukin krafa íslenskra neytenda um aðgengi að ferskri innfluttri matvöru hefur að sama skapi kallað á þróun og aðlögun sjóflutninga til þess að geta afhent slíka vöru til Íslenskra heildsala og verslana hratt og með áreiðanlegum hætti. Okkar einstaka viðskiptalíkan, sem þykir eftirsóknarvert á alþjóðavísu,  byggir á samþættingu sjóflutnings, hafnarþjónustu og vörudreifingar, og leikur lykilhlutverk í skilvirkri og sveigjanlegri þjónustugerir okkur kleift að uppfylla ríkar kröfur íslenskra neytenda um allt land ásamt því að tryggja gæði okkar verðmætu sjávarafurða við afhendingu á erlenda markaði.  

Þriðji ársfjórðungur fer almennt vel af stað og við erum bjartsýn á að afkoman verði betri en á öðrum ársfjórðungi. Við gerum ráð fyrir auknu útflutningsmagni á Íslandi í kjölfar nýs fiskveiðiárs í september, en áfram ríkir óvissa um þróun íslenska hagkerfisins. Makrílveiðar fóru hægt af stað í Færeyjum sem hefur haft neikvæð áhrif á útflutningsmagn frá Færeyjum síðustu vikur en á sama tíma hefur útflutningur á ferskum hvítfiski og laxi verið góður. Jafnframt eru vísbendingar um að makrílveiðar séu nú að aukast og gæði fisksins fari batnandi og þá gerum við ráð fyrir að framleiðsla á eldislaxi nái hámarki á þriðja ársfjórðungi. Á sama tíma hefur innflutningur til Færeyja haldist stöðugur og fyrirhugaðar fjárfestingar í uppbyggingu og innviðum gætu haft jákvæð áhrif á innflutningsmagnið á komandi fjórðungum.

Í alþjóðlegri flutningsmiðlun hefur verið nokkur lækkun á alþjóðlegum flutningsverðum á síðustu örfáum vikum, sem skýrist mögulega af sumarleyfum í Evrópu. Horfur eru almennt góðar en erfitt er að spá fyrir um áhrif langvarandi truflana í aðfangakeðjum heimsins og vaxandi spennu í alþjóðlegum stjórnmálum, á flutningsgetu og alþjóðaviðskipti.“

KYNNINGARFUNDUR 21. ágúst 2024

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir annan ársfjórðung 2024 á stjórnarfundi þann 20. ágúst 2024. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 21. ágúst kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors.

Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og María Björk Einarsdóttir fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung 2024. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

FREKARI UPPLÝSINGAR

Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, sími 844 4752, netfang investors@eimskip.com

TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.

Viðhengi