Árshlutareikningur Sláturfélag Suðurlands jan - jún 2024
Source: GlobeNewswireReykjavík, 22. ágúst 2024.
Fréttatilkynning frá Sláturfélagi Suðurlands svf.
Afkoma á fyrri árshelmingi 2024
- Tekjur á fyrri árshelmingi 9.262 m.kr. og hækka um 3% milli ára
- 613 m.kr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins en 532 m.kr. hagnaður árið áður
- EBITDA afkoma var 1.103 m.kr. en 1.068 m.kr. árið áður
- Eigið fé 7.935 m.kr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 56%
Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélögum þess, Reykjagarði hf. og Hollt og gott ehf.
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2024 var 613 m.kr. Á sama tímabili árið áður var 532 m.kr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er 7.935 m.kr. í lok júní.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 9.262 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2024, en 9.001 m.kr. á sama tíma árið áður og hækka því um tæp 3%. Aðrar tekjur voru 61 m.kr. en 120 m.kr. árið áður.
Vöru- og umbúðanotkun var 4.779 m.kr. en 4.878 m.kr. árið áður. Launakostnaður var 2.110 m.kr. og hækkaði um tæp 8%, annar rekstrarkostnaður var 1.331 m.kr. og hækkaði um tæp 10% og afskriftir voru 275 m.kr. og hækkuðu um rúm 4%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 828 m.kr., en 804 m.kr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 1.103 m.kr. en var 1.068 m.kr. á sama tíma í fyrra.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 68 m.kr., en voru 165 m.kr., á sama tímabili í fyrra. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var 0 m.kr. Reiknaður tekjuskattur nam 147 m.kr., en 122 m.kr. árið áður. Hagnaður af rekstri tímabilsins var 613 m.kr. en 532 m.kr. á sama tímabili árið áður.
Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 1.106 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2024, samanborið við 1.062 m.kr. fyrir sama tímabil árið 2023. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 14.293 m.kr. og eiginfjárhlutfall 56% en 54% árið áður. Veltufjárhlutfall var 2,2 á fyrri hluta ársins 2024, en 2,9 árið áður.
Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum á fyrri árshelmingi 2024 fyrir 321 m.kr. en 245 m.kr. á sama tímabili árið áður. Fjárfest var í fasteignum fyrir 44 m.kr. og vélbúnaði og bifreiðum fyrir 277 m.kr.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2024 var í aprílmánuði greiddur 18,01% arður af B-deild stofnsjóðs alls 36 m.kr. og reiknaðir 10,0% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 40 m.kr.
Stjórn og forstjóri staðfestu árshlutareikning samstæðu Sláturfélagsins fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2024
með undirritun á stjórnarfundi í dag. Árshlutareikningur samstæðunnar er með könnunaráritun endurskoðenda.
Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu SS: www.ss.is
Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ. Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2024 þann 18. febrúar 2025.
Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 56% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,2. Langtímaskuldir í lok júní 2024 voru 1.975 m.kr. Næsta árs afborganir eru um 50 m.kr. en lán samstæðunnar eru til mjög langs tíma. Lausafjárstaða félagsins er einnig góð en handbært fé var í lok júní 1.918 m.kr.
Afkoma Sláturfélagsins batnar milli ára um 82 m.kr. Velta samstæðunnar jókst á milli ára um 3% eða 261 m.kr. Jákvæð áhrif á veltu má fyrst og fremst rekja til aukningar í tekjum af sölu kjötvara.
Nokkur óvissa er framundan sem getur haft neikvæð áhrif á rekstur samstæðunnar á seinni árshelmingi. Hækkanir á rekstrarvöru, bæði innlendri sem erlendri, hafa verið talsverðar á árinu en gert er ráð fyrir að það hægist á þeirri þróun þegar kemur fram á árið 2025. Óvissa er um gengisþróun sem getur haft neikvæð áhrif á afkomu félagins á síðari árshelmingi. Afurðaverð sauðfjár til bænda mun taka hækkunum í haust en lítið svigrúm er til að hækka verð við þær aðstæður sem nú eru á neytendamarkaði en gert er ráð fyrir að einkaneysla dragist saman á næstu mánuðum vegna hás vaxtastigs.
Sala á lambakjöti hefur dregist saman á árinu og birgðastaða í upphafi sláturtíðar verður hærri en í fyrra. Sölusamdráttur lambakjöts á landsvísu var um 11% milli ára sem er umtalsvert en á móti kemur aukning í sölu alifuglakjöts og nautgripakjöts. Innflutningur á kjöti hefur neikvæð áhrif á afkomu afurðafélaga og dregur úr framleiðslu innanlands. Áfram verður unnið að því að aðlaga rekstur samstæðunnar að breyttu rekstrarumhverfi, m.a. með því að leggja áherslu á sérstöðu og gæði innlendrar framleiðslu.
Staða lykilvörumerkja félagsins í matvælaiðnaði er sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum. Aukin vélvæðing og öflug vöruþróun hefur styrkt grundvöll félagsins sem öflugs aðila á kjötmarkaði. Samt sem áður er reiknað með erfiðum aðstæðum á kjötmarkaði á næstu árum vegna hækkana á hrávöru til landbúnaðarframleiðslu og aukningu í innflutningi kjötvara.
Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur styrkt stöðu sína á markaði með nýjum vöruflokkum sem ganga vel. Búvöruhluti innflutningsdeildar hefur byggst upp á undanförnum árum og er að þjónusta bændur með allar helstu rekstrarvörur. Áfram verða nýtt tækifæri til frekari vaxtar. Jákvætt er að verð á áburði til bænda lækkaði umtalsvert frá fyrra ári. Samt sem áður er nokkur óvissa um verðþróun helstu rekstrarvara á næstu misserum sem getur haft neikvæð áhrif á framleiðslukostnað landbúnaðarvara.
Fjárhagsdagatal
18. febrúar 2025 Ársuppgjör 2024
21. mars 2025 Aðalfundur vegna ársins 2024
21. ágúst 2025 Árshlutauppgjör jan-jún 2025
19. febrúar 2026 Ársuppgjör 2025
20. mars 2026 Aðalfundur vegna ársins 2025
Frekari upplýsingar veita:
Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is
Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is
Viðhengi