Félagsfundur SS 6. desember 2024
Stjórn Sláturfélags Suðurlands boðar til félagsfundar 6. desember 2024 klukkan 15:00 í félagsheimilinu Hvoli Hvolsvelli.
Dagskrá:
- Tillaga stjórnar um breytingu á 3. gr. samþykkta félagsins
- Önnur mál
Atkvæðisrétt á félagsfundum hafa fulltrúar sem félagsdeildir tilnefna sbr. 1. m.gr. 16. gr. samþykkta félagsins.
Núverandi 3. grein samþykktanna er svohljóðandi:
„Tilgangur félagsins er að annast slátrun, úrvinnslu og sölu á framleiðslu félagsmanna. Til þess að skapa fjölbreytni um vöruval og þar með að styrkja sölu á framleiðslu félagsmanna hefur félagið með höndum ýmis konar iðnrekstur. Félagið flytur einnig inn vörur og stundar aðra verslun eftir því sem það styrkir sölu á framleiðslu félagsins.
Vegna starfsemi sinnar skipuleggur félagið flutning sláturgripa til sláturhúsa og flutning afurða á markað. Jafnframt skal að því stefnt að losna við ónauðsynlega milliliði og að félagsmenn fái fullt verð fyrir framleiðslu sína.“
Tillaga um breytta 3. grein:
„Tilgangur félagsins er:
- Að annast innan afurðadeildar slátrun, úrvinnslu og sölu á framleiðslu félagsmanna og skipuleggja í því sambandi geymslu afurða, flutning sláturgripa til sláturhúsa og flutning afurða á markað.
- Að losna við ónauðsynlega milliliði og að félagsmenn fái fullt verð fyrir framleiðslu sína.
- Að stunda ýmis konar iðnrekstur til að skapa fjölbreytni um vöruval og styrkja sölu á framleiðslu félagsmanna.
- Að flytja inn vörur og stunda aðra verslun eftir því sem það styrkir sölu á framleiðslu félagsins.
Að starfa sem framleiðendafélag skv. 5. gr. laga nr. 99/1993, með síðari breytingum, að því er varðar afurðadeild félagsins. Eingöngu afurðadeild félagsins, skv. 1. tl. 3. gr. skal vera heimilt að nýta undanþágureglu 71. gr. laga nr. 99/1993 í starfsemi félagsins.“
Greinargerð:
Ný grein í búvörulögum, grein 71 A, gerir sameiningu, samstarf og verkaskiptingu afurðastöðva, sem vinna sem framleiðendafélög, undanþegna ákvæðum samkeppnislaga með ákveðnum skilyrðum.
Sjá eftirfarandi:
[71. gr. A.
Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er framleiðendafélögum skv. 5. gr. heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli afurðastöðva að því er varðar framleiðslu einstakra kjötafurða og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.
Framleiðendafélög sem nýta sér heimild 1. mgr. skulu:
a. safna afurðum frá framleiðendum á grundvelli sömu viðskiptakjara,
b. selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á grundvelli sömu viðskiptakjara og dótturfélögum eða öðrum félögum sem framleiðendafélag hefur yfirráð yfir,
c. ekki setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila,
d. tryggja öllum framleiðendum rétt til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun og hlutun.
Samkeppniseftirlitið fer með eftirlit með framkvæmd 2. mgr.] 1)
Þrátt fyrir að félagið starfi einkum sem framleiðendafélag þá þarf, til þess að félaginu sé heimilt að nýta sér þessa undanþágu, að setja inn í samþykktir SS að félagið starfi sem framleiðendafélag í skilningi 5. gr. búvörulaga.
Nánar segir í 5. grein:
[5. gr.
Til framleiðendafélaga teljast aðeins félög sem eru fyrstu framleiðendur kjötafurða og afleiddra afurða og annast slátrun og/eða vinnslu kjötafurða og afleiddra afurða. Sama gildir um samtök slíkra félaga. Framleiðendafélag getur m.a. verið hlutafélag, einkahlutafélag, samvinnufélag eða sameignarfélag. Þá skal skýrt tekið fram í samþykktum félags sem starfar sem framleiðendafélag að tilgangur þess sé að starfa sem framleiðendafélag til samræmis við ákvæði 71. gr. A.] 1)
Í ljósi þess að SS starfrækir víðtækari starfsemi en felst í starfsemi framleiðendafélags í skilningi 5. gr. búvörulaga þarf að gera skýrt að eingöngu afurðadeild félagsins er heimilt að nýta umrædda undanþágu vegna slátrunar, vinnslu og geymslu og flutnings kjötafurða. Lagt er til að breytingin verði samþykkt því að hún gefur möguleika á samstarfi um hagræðingu í slátrun, hugsanlegri verkaskiptingu í skurði og pökkun kjötafurða og einnig í útflutningi á kjötafurðum sem hagkvæmara er að sé stjórnað frá einni hendi en mörgum.
Reykjavík, 31. október 2024.
Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf.
Viðhengi